Til baka í yfirlit

Rekstur sjóðsins

Heildar skrifstofu- og stjórnunarkostnaður Birtu lífeyrissjóðs nam 1.013 milljónum króna á árinu 2024 en árið 2023 nam hann 907 milljónum króna. Rekstrarkostnaður sjóðsins hækkaði á föstu verðlagi um 6,8% á milli ára.

Markvisst kostnaðareftirlit

Markvisst er dregið úr kostnaði þar sem hægt er til að hagræða í rekstri og áhersla lögð á kostnaðarárvekni alls starfsfólks.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af meðalstöðu hreinnar eignar til greiðslu lífeyris stóð í stað á milli ára og var 0,15% á árinu 2024 sem og á árinu 2023. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum var 4,01% á árinu 2024 en 3,66% árið áður. Frá stofnun Birtu lífeyrissjóðs í lok árs 2016 hefur hlutfall rekstrarkostnaðar af meðalstöðu hreinnar eignar til greiðslu lífeyris lækkað úr 0,22% í 0,15%. Sjóðurinn hefur gegnum árin lagt áherslu á og markvisst dregið úr kostnaði þar sem mögulegt er innan skynsamlegra marka og spilar hugarfar og samstarf starfsfólks þar stóran þátt.

Í skýringu 7 í ársreikningi má sjá sundurliðun á skrifstofu- og stjórnunarkostnaði sjóðsins.

Rekstrarkostnaður

meðalstaða eigna

Árið 2024

Árið 2023

Rekstrarkostnaður 2024

milljónir

Laun, launatengd gjöld og annar kostnaður

Aðkeypt tölvuþjónusta árið 2024 nam 5,4 milljónir króna en var 5,2 milljónir króna árið á undan. Kostnaður við rekstur upplýsingakerfa nam 160 milljónum króna á árinu 2024 en var 158 milljónir árið 2023. Öryggi í rekstri upplýsingatækni er stór og ört stækkandi þáttur í rekstri sjóðsins. Sívaxandi ógnir við net- og gagnaöryggi í upplýsingatækniumhverfi kalla á það að brugðist sé við og varnir efldar. Sjóðurinn leggur þunga áherslu á upplýsingatækniöryggi og að mæta nýjum ógnum með auknum vörnum. Vel ígrundaðar fjárfestingar á sviði öryggisvarna eru því mikilvægar og eru ákvarðanir þar að lútandi teknar með árvekni og skynsemi að leiðarljósi. Starfsfólk sjóðsins fær reglulega þjálfun í að greina hættur tengdar upplýsingatækni og bregðast rétt við þeim, þegar ógn steðjar að.

Gjöld til umboðsmanns skuldara lækkuðu um 7,28%, eftirlitsgjöld til Fjármálaeftirlitsins hækkuðu um 10,04% á milli ára og greiðslur til Landssamtaka lífeyrissjóða hækkuðu um 13,62%.

Fjöldi stöðugilda á árinu var 28,8 og nam heildarfjárhæð launa 610 millj. kr., þar af voru launatengd gjöld 114 millj. kr. samanborið við 543 millj. kr. á árinu 2023 en þar af voru launatengd gjöld 101 millj. kr.

Annar rekstrarkostnaður nam 144 milljónum króna á árinu 2024 samanborið við 133 milljónir króna árið 2023 og jókst því um 8,75%. Hækkunin skýrist að stærstum hluta af sérstakri tryggingafræðilegri úttekt sem unnin var á árinu.

Lögfræðikostnaður jókst m.a. vegna umfangsmikilla verkefna sem unnið var að í samstarfi við aðra sjóði. Sjálfbærnivegferð sjóðsins verður fyrirferðameiri í rekstri hans með hverju árinu í samræmi við auknar kröfur í málaflokknum. Einnig hefur sjóðurinn aukið við áskriftir að mikilvægum gagnaveitum á sviði áhættu- og eignastýringar.

Framleiðniauki

Kostnaðarárvekni verður áfram mikilvæg í rekstri sjóðsins og stöðugt leitað leiða til að hagræða og draga úr kostnaði. Sjóðurinn stækkar með auknu álagi sem leitast er við að mæta með hámörkun framleiðni á hvert stöðugildi innan sjóðsins. Framleiðniaukinn sem byggður er á þróun framleiðni innan starfseminnar er drifinn áfram með einföldun vinnuferla, nýjum tæknilausnum og sjálfvirkni sem svo skilar sér í hagkvæmari rekstri.