Aðkeypt tölvuþjónusta árið 2024 nam 5,4 milljónir króna en var 5,2 milljónir króna árið á undan. Kostnaður við rekstur upplýsingakerfa nam 160 milljónum króna á árinu 2024 en var 158 milljónir árið 2023. Öryggi í rekstri upplýsingatækni er stór og ört stækkandi þáttur í rekstri sjóðsins. Sívaxandi ógnir við net- og gagnaöryggi í upplýsingatækniumhverfi kalla á það að brugðist sé við og varnir efldar. Sjóðurinn leggur þunga áherslu á upplýsingatækniöryggi og að mæta nýjum ógnum með auknum vörnum. Vel ígrundaðar fjárfestingar á sviði öryggisvarna eru því mikilvægar og eru ákvarðanir þar að lútandi teknar með árvekni og skynsemi að leiðarljósi. Starfsfólk sjóðsins fær reglulega þjálfun í að greina hættur tengdar upplýsingatækni og bregðast rétt við þeim, þegar ógn steðjar að.
Gjöld til umboðsmanns skuldara lækkuðu um 7,28%, eftirlitsgjöld til Fjármálaeftirlitsins hækkuðu um 10,04% á milli ára og greiðslur til Landssamtaka lífeyrissjóða hækkuðu um 13,62%.
Fjöldi stöðugilda á árinu var 28,8 og nam heildarfjárhæð launa 610 millj. kr., þar af voru launatengd gjöld 114 millj. kr. samanborið við 543 millj. kr. á árinu 2023 en þar af voru launatengd gjöld 101 millj. kr.
Annar rekstrarkostnaður nam 144 milljónum króna á árinu 2024 samanborið við 133 milljónir króna árið 2023 og jókst því um 8,75%. Hækkunin skýrist að stærstum hluta af sérstakri tryggingafræðilegri úttekt sem unnin var á árinu.
Lögfræðikostnaður jókst m.a. vegna umfangsmikilla verkefna sem unnið var að í samstarfi við aðra sjóði. Sjálfbærnivegferð sjóðsins verður fyrirferðameiri í rekstri hans með hverju árinu í samræmi við auknar kröfur í málaflokknum. Einnig hefur sjóðurinn aukið við áskriftir að mikilvægum gagnaveitum á sviði áhættu- og eignastýringar.