Til baka í yfirlit

Ábyrgar fjárfestingar

Birta lífeyrissjóður leggur áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum sínum.

Stefna sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar

Stefna um ábyrgar fjárfestingar er hluti af fjárfestingarstefnu Birtu. Lögð er áhersla á samþætta aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við hefðbundnar fjárhagslegar greiningar við samval verðbréfa.

Grundvallarviðmið SÞ, íslensk lög ásamt evrópskum reglugerðum leggja grunninn að aðferðafræði Birtu við samþættingu sjálfbærniviðmiða í fjárfestingarferli sjóðsins.

Í ágúst 2024 tók gildi reglugerð Seðlabanka Íslands um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (sk. PAI-reglugerð) sett með heimild í lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, sem leidd voru í lög ári áður í júní 2023.

Markmiðið er sem fyrr að samræma og auka gagnsæi upplýsingagjafar um sjálfbærni í rekstri félaga. Upplýsingar sem Birtu lífeyrissjóði ber að birta samkvæmt lögunum má finna á heimasíðu sjóðsins.

Þá er stefnt að því að tilskipun Evrópusambandsins vegna stórra og/eða skráðra fyrirtækja (CSRD) verði innleidd í íslensk lög á þessu ári. Málaflokkurinn er í örri þróun og er fleiri reglugerða að vænta frá Evrópusambandinu sem hafa það markmið að sporna við grænþvotti og stuðla að sjálfbærum fjárfestingum. Þessi bætta upplýsingagjöf mun ef að líkum lætur leiða til upplýstari ákvarðanatöku í fjárfestingum. Að sama skapi hefur Evrópusambandið nú jafnframt boðað einfaldara regluverk tengt sjálfbærni til að auka samkeppnishæfni fyrirtækja og draga úr kostnaði. Um er að ræða tillögur til breytinga á fyrrnefndri CSRD reglugerð auk Taxonomy reglugerðar Evrópusambandsins. Í því felst m.a. að meiri áhersla verður lögð á upplýsingagjöf stærri fyrirtækja en dregið að sama skapi úr kröfum til minni og meðalstórra fyrirtækja.

Birta lífeyrissjóður horfir einnig til Heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra þróun í allri sinni starfsemi. Um er að ræða umfangsmestu markmið sem ríki heims hafa komið sér saman um en markmið þeirra er að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim fyrir árið 2030.

UNPRI

Birta er aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um ábyrgar fjárfestingar "UN PRI Principle for Responsible Investment".

UNPRI eru alþjóðlegt samstarf sem hvetur fjárfesta til að taka tillit til umhverfis-, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS) þegar þeir taka fjárfestingaákvarðanir. Þeir sem ganga að reglunum skuldbinda sig til að fylgja sex meginreglum sem snúa meðal annars að því að:

  • Sameina UFS-þætti við fjárfestingarferlið
  • Vera virkir eigendur verðbréfa
  • Krefjast betri upplýsingagjafar
  • Styðja við að fleiri innleiði reglurnar
  • Vinna með öðrum aðilum að bættri framkvæmd
  • Skila reglulega frá sér upplýsingum um árangur

UNPRI metur hvernig þátttakendur standa sig. Markmiðið er að bera saman frammistöðu, hvetja til umbóta og auka gagnsæi gagnvart fjárfestum og almenningi.

Þátttakendur skila inn reglulegum skýrslum um starfsemi sína. UNPRI fer yfir þær, metur frammistöðu út frá ákveðnum viðmiðum og gefur einkunn í mismunandi flokkum

Meðfylgjandi mynd sýnir einkunn Birtu fyrir árið 2023.

Um verulega bætingu er að ræða hjá sjóðnum á árinu 2023 frá árinu áður og mælist hún í öllum flokkum. Fyrir árið 2023 var Birta nálægt miðgildi í öllum þeim flokkum sem sjóðurinn hefur beitt sér í en í viðmiðunarhópnum eru stærstu lífeyrissjóðir og eignastýringarfyrirtæki í heimi. Sjóðurinn er ánægður með árangurinn sem náðst hefur og mun kappkosta að halda áfram að bæta sig í þessum efnum enda er mat á UFS þáttum mikilvægt bæði við eigna- og áhættustýringu hjá sjóðnum

Skýringuna á bættri einkunn Birtu má meðal annars rekja til að meiri áhersla var lögð í skýrslugjöf til UNPRI á milli ára sem sýnir og útskýrir betur það starf sem unnið er innan sjóðsins þegar kemur að ábyrgum fjárfestingum. Þá eru þættir eins og samtal við útgefendur, útreikningur á fjármagnaðri losun og loftlagsáhættugreining sem unnið hefur verið að undanfarið líka þættir sem metnir voru til hækkunar.

Hér má sjá niðurstöður úttektar UN PRI.

unpri23

Alþjóðlegt samstarf - CIC

Birta er þátttakandi í samstarfi norrænna og breskra lífeyrissjóða um fjárfestingar í hreinni orkuframleiðslu

Viljayfirlýsing íslensku lífeyrissjóðanna gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition CIC kveður á um fjárfestingu fyrir samtals 4,5 milljarða Bandaríkjadala sem samsvarar um 580 milljörðum íslenskra króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Frá því að samstarfið hófst hefur Birta fjárfest umtalsvert í fyrirtækjum bæði skráðum og óskráðum sem flokkast undir skilgreininguna og hleypur það á þriðja tug milljarða. Auk þess hefur sjóðurinn skuldbundið sig til frekari fjárfestinga sem flokkast undir samkomulagið.

Mikilvæg verkefni framundan hjá sjóðnum varðandi sjálfbæra þróun

Sjálfbær þróun er langtímaverkefni sem krefst stöðugrar endurskoðunar, umbóta og markvissrar eftirfylgni. Á árinu 2024 lagði Birta ríka áherslu á að efla starf sitt á sviði sjálfbærni og unnið var að margvíslegum verkefnum, þar á meðal endurskoðun á stefnu um ábyrgar fjárfestingar, loftslagsáhættugreiningu og undirbúningi að mikilvægisgreiningu samkvæmt 8. gr. laga nr. 25/2023.

Samhliða hefur sjóðurinn metið notkun mögulegra upplýsingakerfa sem nýtast við sjálfbærnigreiningu og utanumhald um viðeigandi gögn. Má þar nefna Reitun fyrir íslenska markaðinn og Morningstar og Bloomberg fyrir erlenda markaði.

Sjóðurinn mun halda áfram virku samtali við útgefendur og aðra hagsmunaaðila með það að markmiði að stuðla að auknu gagnsæi og dýpri umræðu um sjálfbærnimál. Þá verður áfram unnið að því að ná betri yfirsýn yfir loftslagsáhættu eignasafnsins og þróa aðgerðir byggðar á niðurstöðum þeirra greininga.

Útreikningur á fjármagnaðri kolefnislosun samkvæmt PCAF-aðferðafræðinni er áfram lykilverkefni í þessu samhengi, og er nánar fjallað um niðurstöður þess í sérstakri umfjöllun.

Að auki stefnir Birta að því að bæta einkunn sína í UNPRI skýrslunni, sem er alþjóðlegur viðmiðunarstaðall um árangur í ábyrgum og sjálfbærum fjárfestingum.