Rekstrarárið 2024 var okkur farsælt líkt og helstu kennitölur um ávöxtun eigna og rekstur bera vitni um.
Reynslan hefur ítrekað kennt að ábyggilegar niðurstöður ávöxtunar liggja fyrir í lok árs og ekki fyrr. Á sama hátt er farsælt í hópíþróttum að hafa ætíð í huga að leik lýkur ekki fyrr en flautan gellur.
Við höfum upplifað bæði óvænta dýfu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í lok árs en líka sveiflu upp á við á síðasta fjórðungi eða síðasta mánuði ársins.
Árið 2024 var í heildina ekki sveiflukennt. Hrein raunávöxtun eigna Birtu lífeyrissjóðs er 6,29%. Fimm ára meðalraunávöxtun samtryggingadeildar er liðlega 3% og tíu ára meðalávöxtun um 4%, vel yfir 3,5% viðmiði til lengri tíma.
Hreinar fjárfestingartekjur voru tæplega 72 milljarðar króna en voru tæplega 53,4 milljarðar árið 2023.
Sjóðurinn fylgir fjárfestingarstefnu sem í framkvæmd er varfærin, hógvær og skynsamleg. Við erum með öðrum orðum ekki áhættusækin í fjárfestingum. Þegar upp var staðið um síðastliðin áramót hafði starfsemin skilað vel viðunandi afkomu. Heimilishald Birtu lífeyrissjóðs er með öðrum orðum í góðu lagi!
Fjárfestingar og ávöxtun eigna eru mál málanna í starfi sjóðsins frá degi til dags og í því sambandi skiptir rekstraröryggi meginmáli. Þar vil ég sérstaklega nefna hinn dýrmæta mannauð hjá Birtu lífeyrissjóði, öflugt og reynsluríkt starfsfólk með yfirgripsmikla þekkingu á sínum sviðum. Vakin er verðskulduð athygli á vönduðum vinnubrögðum þess í innri endurskoðunarskýrslum sjóðsins.
Starfsmannaveltan er lítil. Fólk starfar lengi hjá okkur og við kveðjum vegna aldurs, fólk sem hefur lagt okkur lið áratugum saman. Reynsla og langur starfsaldur er sjóðnum dýrmæti og til vitnis um að Birta er góður og áhugaverður vinnustaður og fyrirrennarar sjóðsins voru það sömuleiðis.
Ávöxtun í fortíð er ekki ávísun á ávöxtun í framtíð. Margt í umhverfi okkar nær og fjær skapar óvissu. Það liggur í hlutarins eðli.
Fyrir fáeinum árum óraði okkur ekki fyrir því að á Reykjanesskaganum kviknuðu jarðeldar aftur og aftur og rýma þyrfti heilt bæjarfélag vegna náttúruhamfaranna. Innrás í Úkraínu snerti samfélag okkar á margan hátt, alþjóðlegt tollastríð gerir það líka og skyndilega blasir við að Íslendingar þurfa að meta og búa sig undir afleiðingar þess að fjarskiptasamband landsins við umheiminn rofni vegna skemmdarverka eða hernaðarátaka.
Þannig mætti áfram telja og þannig er umhorfs hjá okkur í veröldinni á því herrans ári 2025.
Við búum á landfræðilegu eylandi en erum ekki eyland í alþjóðlegum skilningi. Heimsmálin ber óhjákvæmilega á góma líka á stjórnarfundum í Birtu enda eigum við hagsmuna að gæta mun víðar en virst gæti fljótt á litið.
Stjórn Birtu hefur um árabil komið saman til reglulegra funda einu sinni í mánuði. Vegna aukinna verkefna stjórnar að þá sýndi sig að mánaðarlegir fundir dugðu okkur ekki til að komast yfir öll þau verkefni sem fyrir okkur liggja. En fyrir þetta starfstímabil stjórnar, lá fyrir samþykki launanefndar að boða til fleiri stjórnarfunda gegn greiðslu. Aukafundir stjórnar urðu alls átta á árinu 2024 þar sem við sinnum sífellt meiri eftirlitsskyldum en sköpuðum um leið tíma og svigrúm til að ræða stefnumótun fyrir sjóðinn og fjalla ítarlega um ýmis tilfallandi mál sem varða starfsemina á einn eða annan hátt. Ég nefni sem dæmi innviðafjárfestingar sem oft er vikið að í þjóðmálaumræðunni, ekki síst á vettvangi stjórnmálanna og voru oft nefndar í aðdraganda alþingiskosninganna 2024.
Oftar en ekki fylgir sögu í stjórnmálaumræðunni að hinar og þessar brýnar innviðafjárfestingar henti lífeyrissjóðum vel og vissulega má það til sanns vegar færa í sumum tilvikum en öðrum síður. Innviðafjárfestingar hafa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið nefndar í ávörpum stjórnarformanna Birtu lífeyrissjóðs á aðalfundum á undanförnum árum og áhuga lýst að láta framkvæmd fylgja orðum að nauðsynlegum skilyrðum uppfylltum í samræmi við þá grunnstarfsemi lífeyrissjóða, að taka við iðgjöldum, ávaxta þau og greiða út lífeyri. Færri sögum fer hins vegar af innviðaverkefnum af þessu tagi í raun.
Ég tek undir það sem forystumenn Birtu lífeyrissjóðs hafa áður sagt: Við erum reiðubúin til að taka þátt í innviðaverkefnum til langs tíma en þá þannig að fjárfestingarnar skili arði til að sjóðurinn standi undir þeim lífeyrisgreiðslum sem honum er ætlað að ábyrgjast.
Sjálfri hugnast mér einna best að taka þátt í að fjármagna verkefni í samgöngugeiranum, til dæmis brýr eða jarðgöng. Sjóðfélagar yrðu að vera sáttir við verkefnin sem kæmu til álita og skilyrði af okkar hálfu væri þau að fagfólk á viðkomandi sviðum tæki þátt í því að búa til tilheyrandi innviðafélög og stýra þeim en ekki stjórnmálamenn. Þar horfi ég ekki síst til farsællar reynslu af Hvalfjarðargöngum, félaginu Speli og aðkomu lífeyrissjóða í því sambandi.
Í þessu sambandi nefni ég að Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, er áberandi í öðru hlutverki í opinberri umræðu um mögulegar innviðafjárfestingar og fleira, það er að segja sem formaður nefndar um fjárfestingar lífeyrissjóða á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða. Þetta verkefni er drjúg viðbót við allt hitt sem framkvæmdastjórinn hefur á sinni könnu en varðar auðvitað okkar lífeyrissjóð beint eða óbeint.
Við í stjórn Birtu erum þeirrar skoðunar að mikill fengur sé að því að einmitt fólk á borð við framkvæmdastjórann okkar, sem hefur á færi sínu að fjalla um starfsemi og fjárfestingar lífeyrissjóða á skýru mannamáli, upplýsi, svari spurningum og taki slaginn fyrir hönd lífeyrissjóðakerfisins ef og þegar á þarf að halda. Oft er þörf á slíku en tvímælalaus nauðsyn til dæmis í aðdraganda alþingiskosninga í vetur þegar enn einn ganginn var boðuð frekari skattlagning í lífeyrissjóðakerfinu, eins og ekki væri miklu meira en nóg komið af því að eftirlaunafólk borgaði jafnvel tvöfaldan skatt af lífeyristekjum sínum.
Birta er frjór vettvangur skoðanaskipta fólks með mismunandi bakgrunn og skoðanir. Það er eitt af mörgu sem ég kann vel að meta af kynnum mínum af sjóðnum og starfi í þágu sjóðsins.
Tvö 90 manna fulltrúaráð okkar eru á sinn hátt þverskurður af þjóðinni. Fulltrúaráðið launamannamegin er mun virkara en það sem er skipað er launagreiðendum og þannig er það bara. Þar velta menn vöngum og skiptast á skoðunum, varpa fram hugmyndum, tjá sig um fjárfestingarstefnuna og einstakar fjárfestingar og svo framvegis.
Þessar raddir berast stjórn og stjórnendum sjóðsins. Viðhorf fulltrúa í ráðinu eru velkomin, gagnleg og hafa sín áhrif.
Fulltrúaráði eru líka birtar upplýsingar og gögn sem síðan eru lögð fyrir ársfundi sjóðsins. Fulltrúar í ráðinu hafa þá tækifæri til að láta ljós sín skína og viðra skoðanir sínar.
Þarna eru raunveruleg tækifæri til áhrifa sem ekki skal vanmeta.
Stjórn Birtu er samheldinn hópur ólíks fólks með mismunandi reynslu, bakgrunn og sýn á tilveruna. Við erum opinská, hreinskilin og sjálfsgagnrýnin. Þarna er gott og gjöfult að starfa.
Ég neita mér svo ekki um að nefna að í fyrsta sinn skipa konur bæði formanns- og varaformannsæti stjórnar því Þóra Eggertsdóttir er í varaforsæti stjórnarinnar sem skilar af sér nú. Eftir því er tekið að nú um stundir eru konur í mörgum helstu valda- og áhrifastöðum samfélagsins. Birta lífeyrissjóður braut sem sagt líka blað að þessu leyti 2024.
Starf stjórnar sjóðsins endurspeglaði heilbrigða stjórnarhætti líkt og sjálfsmat hennar, sem birtist í ársskýrslunni, leiðir í ljós.
Ég þakka stjórnarmönnum og starfsfólki Birtu lífeyrissjóðs fyrir gott og farsælt samstarf og þakka sjóðfélögum fyrir föruneytið á árinu 2024.